Sía eftir:
Flokkar

Kortaskilmálar Curron

1. Samþykki kortaskilmála

Við móttöku CTS korts Curron hf., kt. 440391-1929 (hér eftir nefnt Curron), eða með notkun kortsins, samþykkir korthafi að fylgja í hvívetna kortaskilmálum þessum, eins og þeir eru á þeim tíma. Gildandi útgáfu þeirra má ávallt finna á vefsíðu CTS, á slóðinni www.cts.is. Áður en væntanlegur korthafi samþykkir skilmálana ber honum að kynna sér þá vandlega.

2. Skilgreiningar

Eftirtalin hugtök hafa svofellda merkingu þar sem þau koma fyrir í samningi þessum:

 • Rafræn varaer óáþreifanleg vara sem skilgreind er í CTS. Notkunareiginleiki og tilgangur hverrar rafrænnar vöru getur verið misjafn og einnig hvar og hvenær hægt er að nota hana. Hægt er að skipta rafrænum vörum í tvo flokka eftir því hvar inneign viðkomandi vöru er vistuð:
  • Inneign kortavöru er vistuð á sjálft CTS kortið.
  • Inneign reikningsvöru er vistuð miðlægt í CTS.
 • Vörueigandi leggur til rafrænar vörur sem skilgreindar eru í CTS og korthafar geta eftir atvikum keypt inn á CTS kortareikning sinn eða hlaðið á CTS kort sín. Rafrænar vörur geta korthafar síðan notað til greiðslu hjá afgreiðsluaðilum fyrir vöru og þjónustu.
 • Afgreiðsluaðili starfrækir útstöð eða útstöðvar sem tengjast CTS. Slíkar útstöðvar mynda sölu-, dreifi- og þjónustunet CTS, þ.e. með þeim er CTS korthöfum gert kleift að nota útgefin CTS kort til kaupa og notkunar á rafrænum vörum CTS.
  • Afgreiðslustaður er starfsstöð á vegum afgreiðsluaðila þar sem er að finna minnst eina útstöð sem tengd er við CTS. Hver afgreiðsluaðili starfrækir einn eða fleiri afgreiðslustaði.
  • Útstöð er tenging við CTS þar sem korthafar geta keypt eða notað rafrænar vörur. Hver afgreiðslustaður kann að hýsa eina eða fleiri útstöðvar. Dæmi um útstöðvar: Afgreiðslukerfi í verslunum; aðgangshlið í sundstöðum; dælur á bensínstöðum fyrir sjálfsafgreiðslu.
 • CTS kort eða kortið er snertilaust snjallkort, annar sambærilegur greiðslumiðill með örflögu, eða segulrandarkort, sem hefur verið forsniðið, gefið út og veitt kortanúmer í CTS og er þar með nothæft í CTS. Upplýsingar um tegundir og eiginleika þeirra CTS korta sem nothæf eru hverju sinni í CTS er að finna á vefsíðu CTS.
 • CTS eða Curron TicketSystem kerfi er miðlægt kerfi til afhendingar og móttöku á rafrænum vörum sem gefnar eru út af þeim sem kaupa aðgang að kerfinu. Slík afhending og móttaka fer fram á afgreiðslustöðum sem reknir eru af þeim fyrirtækjum og stofnunum sem kaupa aðgang að kerfinu.

3. Útgáfa, eignarhald, lokun og afturköllun

Öll CTS kort hafa þriggja ára gildistíma og eru til notkunar samkvæmt ákvæðum skilmála þessara eins og þeir eru hverju sinni.

Ef korthafi eða handhafi korts vanefnir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum getur Curron fyrirvaralaust lokað viðkomandi korti og kortareikningi korthafa. Öll CTS kort eru eign Curron hf., sem getur án fyrirvara innkallað þau. Í báðum tilvikum ber korthafa að skila korti sínu án tafar til Curron. Vanefnd korthafa á skyldum hans getur leitt til þess að korthafi fái ekki nýtt kort útgefið síðar.

Ef kemur til lokunar korts eða innköllunar korta ber korthöfum að beina öllum kröfum sínum um endurgreiðslur á rafrænum vörum, hvort sem um er að ræða kortavöru eða reikningsvöru, til útgefanda rafrænu vörunnar. Curron ber í engum tilvikum ábyrgð á rafrænum vörum korthafa.

Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út, því hefur verið lokað eða það afturkallað. Misnotkun kortsins getur varðað við lög, þar á meðal við ákvæði almennra hegningarlaga.

Vilji korthafi loka korti skal hann skila kortinu á skrifstofu til þess vörueiganda sem afhenti honum kortið, hafi umsækjandi þegar veitt því móttöku.

Fái korthafi nýtt kort í stað korts sem hefur verið sagt upp eða lokað, er öll inneign viðkomandi korthafa í rafrænum vörum færð á hið nýja kort gegn gjaldi skv. gildandi verðskrá Curron.

4. Notkun korts

Korthafi hefur einn heimild til notkunar kortsins.

Kortið veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu, gegn innistæðu sem korthafi á í rafrænum vörum, hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við CTS kortum og viðkomandi rafrænum vörum. Við úttekt á vöru og þjónustu skal korthafi framvísa kortinu. Með lestri rafrænnar vöru af kortinu samþykkir korthafi viðkomandi viðskipti. Úttektir rafrænna vara af inneign korthafa eru reikningsfærðar samstundis. Engin viðskipti geta átt sér stað nema inneign fyrir þeim sé þegar fyrir hendi og hægt sé að færa hana af CTS-reikningi korthafa.

Korthafi er ábyrgur fyrir öllum úttektum á rafrænum vörum af eða með korti hans. Korthafi er ábyrgur fyrir varðveislu kortsins þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það, enda ber honum að gæta þess á sama örugga hátt og peninga, tékka og annarra verðmæta.

5. Villur og ábyrgð

Hafi korthafi athugasemdir við færslu af inneign sinni á rafrænum vörum á CTS-reikningi sínum ber honum að tilkynna það viðkomandi afgreiðsluaðila innan 10 daga frá því að viðskipti áttu sér stað. Að öðrum kosti telst korthafi samþykkja viðkomandi færslu.

Ef afgreiðsluaðili er ófús eða ófær um að inna af hendi þá þjónustu sem korthafi hefur greitt fyrir með CTS korti sínu, atburði hefur verið aflýst eða afgreiðsluaðili er hættur rekstri, getur korthafi sent skriflega kvörtun til viðkomandi vörueiganda í allt að 30 daga frá þeirri dagsetningu sem þjónustuna átti að inna af hendi, en þó eigi síðar en innan fjögurra mánaða frá þeim degi sem viðkomandi færsla á CTS kort á sér stað. Kvörtuninni skulu fylgja fullnægjandi gögn til staðfestingar kaupum á þjónustunni. Telji vörueigandi að þjónustan hafi sannanlega ekki verið innt af hendi vegna ofangreindra ástæðna, endurgreiðir hann korthafa sem svarar vanefndunum. Komi óviðráðanlegar ytri aðstæður upp (force majeure), sem varða ekki viðkomandi afgreiðsluaðila eingöngu, svo sem náttúruhamfarir, stríð, verkföll, faraldur, viðskiptabann, sjótjón eða óeirðir, í veg fyrir að afgreiðsluaðili geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart korthafa, veitir slíkur ómöguleiki korthafa ekki rétt til endurgreiðslu samkvæmt ofangreindu.

Sérhver ágreiningur út af gæðum vöru eða þjónustu skal leystur beint á milli korthafa og afgreiðsluaðila og ber Curron enga ábyrgð á gæðum keyptrar vöru eða þjónustu.

Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna tæknilegrar bilunar í sjálfsafgreiðslutækjum sem ætlað er að taka við greiðslu af CTS korti, ber viðkomandi afgreiðsluaðila að færa fram fullgild rök fyrir því að búnaðurinn hafi starfað rétt þá er umrædd viðskipti fóru fram, en er ella ábyrgur fyrir tjóninu. Ábyrgð takmarkast við beint fjárhagslegt tjón korthafa. Engin ábyrgð er tekin á tjóni þegar tæknibilun á að vera korthafa ljós, svo sem þegar skilaboð þess efnis koma fram á tölvuskjá.

Curron ber hvorki ábyrgð á því ef móttöku korts er hafnað sem greiðslu hjá afgreiðsluaðila eða í sjálfsafgreiðslutæki, né því tjóni sem leitt getur þar af.

6. Glötuð kort

Glatist kort ber korthafa að tilkynna það tafarlaust til Curron eða loka kortinu sjálfur á vefsíðu CTS. Sé tilkynningin gefin símleiðis, skal staðfesta hana innan 3ja daga.

Óski korthafi eftir nýju korti í stað glataðs ber honum að skila inn skriflegri yfirlýsingu til viðkomandi vörueiganda um glatað kort og undirrita þar beiðni um nýtt kort.

Hafi glatað kort verið notað af óviðkomandi aðila áður en korti hefur verið lokað eftir að hvarf þess er tilkynnt ber korthafi einn alla ábyrgð á þeirri notkun.

Fái korthafi nýtt kort í stað korts sem hefur glatast getur hann óskað eftir því að öll inneign í rafrænum vörum verði færð af glataða kortinu yfir á hið nýja kort.

Finni korthafi kort, sem tilkynnt hefur verið glatað, er honum óheimilt að nota það. Tilkynna ber Curron um fund þess og skal finnandi skila því til Curron eða viðkomandi vörueiganda án dráttar.

Óski korthafi eftir enduropnun korts, sem tilkynnt hefur verið glatað en korthafi hefur fundið aftur, ber hann ábyrgð á allri notkun kortsins meðan það var glatað. Beiðni um enduropnun korts skal vera skrifleg og skal beint til Curron og einnig getur korthafi sjálfur enduropnað kortið af vefsíðu CTS ef hann lokaði því sjálfur.

7. Persónuvernd og samþykki fyrir vinnslu

Með samþykki skilmála þessara veitir korthafi Curron heimild til að vinna persónuupplýsingar sem korthafi hefur veitt Curron, vörueigendum eða afgreiðsluaðilum og persónuupplýsingar sem verða til við notkun kortsins, nánar tiltekið meðal annars kennitölu korthafa, kortanúmer, dagsetningu færsla, tími færslu, auðkenni færslu, upplýsingar um verslun og þjónustuaðila, verðmæti einstakrar færslu og upplýsingar sem verða til í greiðslumiðlunarkerfum (hér einu nafni nefndar persónuupplýsingar). Með samþykki skilmálanna og því að upplýsa Curron um símanúmer og/eða tölvupóstfang sitt veitir korthafi Curron einnig heimild til þess að senda SMS, MMS, tölvupóst eða önnur rafræn skilaboð 3-5 sinnum í mánuði um tilboð, afslætti eða sérkjör frá samstarfsfyrirtækjum. Þá veitir korthafi Curron, með samþykki skilmálanna, einnig heimild til að senda korthafa skilaboð er varða notkun kortsins eða tilkynningar um breytingar á skilmálum kortsins.

Curron vinnur persónuupplýsingar um korthafa og kortanotkun. Þær upplýsingar sem um ræðir eru m.a. nafn, kennitala, heimilisfang og upplýsingar um innistæður í rafrænum vörum og kortaviðskipti.

Curron er nauðsynlegt að vinna persónuupplýsingar til að gegna hlutverki sínu sem rekstraraðili CTS. Persónuupplýsingar eru einkum notaðar til að tryggja rekjanleika færslna, endurútgáfu korta og við aðra eðlilega starfsemi tengda CTS.

Curron er ábyrgðaraðili framangreindrar vinnslu og meðferðar persónuupplýsinga, í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Við vinnslu persónuupplýsinga er aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn Curron sem hann þurfa starfs síns vegna. Auk þess er Curron heimilt að miðla persónuupplýsingum til vörueigenda, afgreiðsluaðila og til vinnsluaðila, svo sem aðila sem gert hafa þjónustusamninga við Curron, vörueigenda eða afgreiðsluaðila; aðila sem korthafi heimilar eða nauðsynlegt er að fái viðkomandi upplýsingar svo korthafi fái notið þjónustunnar; auk aðila sem Curron er á hverjum tíma skylt að veita upplýsingar á grundvelli laga eða dómsúrskurðar.

Curron tryggir öryggi persónuupplýsinga með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd.

Persónuupplýsingar korthafa eru einungis varðveittar á meðan kort korthafa er í gildi, eins lengi og lög mæla fyrir um eða svo lengi sem viðskiptahagsmunir Curron krefjast þess og málefnaleg ástæða er til.

8. Gjaldtaka

Við fyrstu útgáfu korts er þeim vörueiganda sem afhendir korthafa kortið heimilt að krefja korthafa um sérstakt stofngjald.

Fyrir útgáfu nýs korts í stað glataðs er þeim vörueiganda sem afhendir korthafa kortið heimilt að krefja korthafa um endurútgáfugjald.

Sé kort gefið út til takmarkaðs tíma heimilar korthafi útgefanda að endurnýja kortið 6 vikum áður en það rennur út og halda áfram að endurnýja kortið á þann hátt þangað til fyrirmæli berast um annað frá korthafa.

Öll gjöld reiknast eftir því sem við á samkvæmt auglýstri gjaldskrá Curron sem nálgast má á heimasíðu Curron á slóðinni http://www.cts.is og gjaldskrá þess vörueiganda sem afhendir korthafa kortið, eins og þær gjaldskrár eru á hverjum tíma.

9. Höfundaréttur

CTS, tengd gögn og búnaður sem stafa frá seljanda er alfarið einkaeign hans að öllu leyti, þar á meðal notkunarleiðbeiningar, kynningar- og kennsluefni, sem og verklag og vinnubrögð við notkun CTS. Seljandi á einn allan hugverkarétt, þar með talinn höfundarrétt, að öllum slíkum gögnum, búnaði og efni.

Með aðgangi að CTS og/eða notkun CTS korts öðlast korthafi eða aðrir en seljandi engan höfunda- eða hugverkarétt að CTS eða öðrum hugbúnaði eða hugverkum sem tengist eða kann að tengjast CTS. Hið sama gildir varðandi tengt efni, svo sem leiðbeiningar um notkun eða annað kynningar- og kennsluefni.

Í sumum tilvikum kunna að vera innbyggðir öryggiskóðar eða annars konar aðgangshindranir í CTS og er korthafa óheimilt að breyta eða sneiða hjá slíkum hindrunum. Einnig er korthafa óheimilt að breyta eða eyða upplýsingum er varða réttindi, vörumerki eða annað þess háttar.

10. Breytingar á skilmálum

Curron hefur rétt til að gera einhliða breytingar á samningsskilmálum þessum og skulu slíkar breytingar taka gildi við næstu endurnýjun kortsins en þó eigi síðar en 30 dögum eftir að korthafa hefur verið tilkynnt um viðkomandi breytingar með öruggum hætti, svo sem með póstsendingu á lögheimili korthafa. Korthafi telst hafa samþykkt breytinguna ef hann notar kortið eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi.

Ef korthafi sættir sig ekki við breytingu á skilmálum, getur hann sagt upp kortinu fyrirvaralaust.

11. Lögsaga og varnarþing

Um sérhvern ágreining sem tengist samningi þessum skal fara að íslenskum lögum.

Rísi ágreiningur vegna samnings þessa eða um efni hans skal dómsmál um slíkan ágreining rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir gilda frá og með 1. nóvember 2008. Gildandi útgáfu þeirra má ávallt finna á vefsíðu CTS.